Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda (NKG) býr að öflugu baklandi meðal fyrirtækja, stofnana og félaga í íslensku samfélagi.
Umsjón er á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og framkvæmd er á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands
Verkefnishópur
Nýsköpunarmiðstöð Íslands hvetur til nýsköpunar og eflir framgang nýrra hugmynda í íslensku atvinnulífi með virkri þátttöku í rannsóknarverkefnum og stuðningi við frumkvöðla og fyrirtæki. Við lítum á nýsköpun sem forsendu fyrir fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og undirstöðu sterkrar samkeppnisstöðu þess.
Kjarnastarfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands skiptist í tvö svið:
-
Stuðningur við frumkvöðla og fyrirtæki: Öflug stuðningsþjónusta og þekkingarmiðlun fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki.
-
Tæknirannsóknir og ráðgjöf: Hagnýtar rannsóknir og tækniráðgjöf á sviði bygginga og mannvirkja, framleiðslu, líf- og efnistækni, efnagreininga og orku.
Háskóli Íslands er alþjóðlegur rannsóknaháskóli og hefur jafnframt ríkum skyldum að gegna við íslenskt samfélag, menningu og tungu. Í háskólanum eru um 14.000 nemendur í grunn- og framhaldsnámi, þar af eru um 1.100 erlendir nemar. Háskólinn hefur heimild til að brautskrá doktora á öllum fræðasviðum sínum. Skólinn er í nánu samstarfi við marga af helstu rannsóknaháskólum og háskóladeildum heims. Rannsóknavirkni starfsmanna hefur vaxið hratt á undanförnum árum og sýna alþjóðlegir mælikvarðar að áhrif rannsókna þeirra hafa aukist verulega.
Háskólinn í Reykjavík er miðstöð kennslu og alþjóðlegra rannsókna. Námsdeildir eru fjórar; lagadeild, tækni- og verkfræðideild, tölvunarfræðideild og viðskiptadeild og eru við þær kenndar undirstöðugreinar nýsköpunar og öflugs atvinnulífs. Boðið er upp á grunnnám, meistaranám og doktorsnám. Háskólinn útskrifar tvo af hverjum þremur sem ljúka tækninámi á háskólastigi á Íslandi, helming þeirra sem ljúka viðskiptafræðinámi og þriðjung þeirra sem ljúka laganámi. HR er ungur og framsækinn háskóli sem hefur á skömmum tíma haslað sér völl öflugur rannsóknarháskóli samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum. Rúmlega þrjú þúsund nemendur stunda nám við HR á ári hverju.
Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur að eflingu samstarfs íslenskra sveitarfélaga og að hvers konar hagsmunamálum þeirra. Verulegur hluti starfseminnar felst í hagsmunagæslu fyrir sveitarfélögin gagnvart ríkisvaldinu og öðrum innlendum og erlendum aðilum. Sambandið mótar stefnu sveitarfélaganna til einstakra mála og hefur því náin samskipti við ríkisstjórn og Alþingi.
Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið veitir ferðastyrk NKG en tilgangur hans er að jafna aðgengi þátttakenda af landsbyggðinni að viðburðum keppninnar.
Bakhjarlar
ELKO stærsta raftækjaverslun landsins, opnaði þann 28. febrúar árið 1998 og varð strax frá upphafi leiðandi á sínu sviði á Íslandi. ELKO hefur ávallt haft það að markmiði að bjóða þekkt vörumerki raftækja á lágu verði. Verslanir eru 5 og með samtals 5.000 m2 sölusvæði auk stórs vöruhúss. Hjá ELKO starfa um 135 manns. Verslanir ELKO eru í Lindum, Skeifunni, Granda, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Vefverslun ELKO.is.
IKEA er meira en hagnýt hönnun því fyrirtækið tekur samfélagslega ábyrgð sína alvarlega og axlar hana með ánægju með stuðningi við málefni sem snerta börn og menningu í víðtækum skilningi. Nýsköpunarkeppni grunnskólanna tónar vel við áherslur IKEA. Við erum því afar stolt og ánægð að geta lagt okkar lóð á vogarskálarnar til þess að styðja við nýsköpun, eflingu og þroska íslenskra barna.
Innan Samtaka iðnaðarins eru rúmlega 1200 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda. Þau eru mjög ólík innbyrðis, hvort sem litið er til stærðar, framleiðslu eða markaða. Þessi mikla fjölbreytni gerir starfið í senn vandasamt og nauðsynlegt. Þess er gætt að leggja áherslu á það sem er sameiginlegt en um leið hlúð að því sértæka. Þetta hefur tekist með svo farsælum og árangursríkum hætti að Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda í landinu.
Samstarfsaðilar
Arion banki sýnir samfélagslega ábyrgð í verki með því að taka virkan þátt í samfélaginu og uppbyggingu þess. Fjármálafyrirtæki eru ein af stoðum samfélagsins og er helsta hlutverk þeirra að styðja við einstaklinga og atvinnulífið. Arion banki ræktar hlutverk sitt sem fjármálafyrirtæki af kostgæfni og leggur áherslu á sanngirni með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa og samfélagsins alls að leiðarljósi.
Einkaleyfastofan er ríkisstofnun undir yfirstjórn atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Stofnunin tók til starfa 1. júlí 1991 og tók þá við hlutverki einkaleyfa- og vörumerkjadeildar Iðnaðarráðuneytisins. Hlutverk stofnunarinnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignaréttinda á sviði iðnaðar. Þá ber stofnuninni að stuðla að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi.
JCI Ísland – stendur fyrir Junior Chamber International. JCI er alþjóðleg hreyfing fyrir ungt fólk á aldrinum 18 til 40 ára sem hefur áhuga og metnað til þess að efla hæfileika sína og hafa jákvæð áhrif í kringum sig. Undirstaða starfsins er að efla einstaklinginn, gefa tækifæri til að vaxa í leik og starfi og gera hann þannig hæfari til að takast á við stjórnun og ábyrgð í félagsstarfi og athafnalífi.
Styrktaraðilar
Mjólkursamsalan er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins á Íslandi og er í eigu rúmlega 650 kúabænda um land allt. Fyrirtækið er leiðandi fyrirtæki í matvælaiðnaði á Íslandi. Hlutverk hennar er að taka við mjólk frá eigendum sínum og umbreyta í hollar og góðar mjólkurafurðir í takt við þarfir íslenskra neytenda.
Advania býður fjölbreyttar lausnir og þjónustu, sem svara kröfum og þörfum liðlega sjö þúsund viðskiptavina í atvinnulífinu. Lausnaframboð Advania spannar upplýsingatækni frá A til Ö og viðskiptavinir geta sótt þangað samþætta heildarþjónustu, allt á einn stað. Og þá gildir einu hvort um er að ræða hugbúnað, vélbúnað, ráðgjöf eða rekstrarþjónustu
Geislar ehf. var stofnað í byrjun janúar 2012 af Pálma Einarssyni, iðnhönnuði, sem hannar og framleiðir bæði leikföngin og gjafavörurnar og sér einnig um hönnun umbúða og heimasíðu fyrirtækisins. Pálmi Einarsson á heiðurinn af hönnun á nýja merki NKG og á hann miklar þakkir fyrir. Hann sér einnig um hönnun og framleiðslu á verðlaunagrip NKG.
Sænska uppfinningarkeppnin Finnupp er haldin þriðja hvert ár, keppnin hefur verið haldin síðan árið 1979 þar sem nemendur í 6-9 bekk í sænskum grunnskólum taka þátt. Allt frá árinu 1992 hefur Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda (NKG) notið góðs af samstarfi við sænsku keppnina. Hvort sem það varðar grunn hugmyndafræði, kennsluefni eða ráðgjöf, þá hefur Finnupp alltaf stutt starf NKG á Íslandi og sýnt keppninni mikla velvild.