Um NKG

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. – 7. bekk grunnskóla. Keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1991 og hefur verið haldin, óslitið síðan. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða skólaárinu þar sem nemendur fá kennslu við að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmyndum til veruleika. Þetta ferli virkjar sköpunarkraft nemenda í lausnamiðuðum hugsunarhætti og eykur sjálfstraust þeirra og frumkvæði.

NKG hefst á haustin og lýkur á vorin með vinnusmiðju þar sem þátttakendur í úrslitum fá tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar frekar með aðstoð leiðbeinenda frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og annarra samstarfsaðila. Í kjölfarið er haldið lokahóf þar sem  forseti Íslands afhendir stórglæsileg verðlaun og viðurkenningarskjöl.

Eigandi NKG er Mennta- og menningarmálaráðuneytið en Menntavísindasvið Háskóla Íslands sér um rekstur keppninnar í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Samband íslenskra sveitarfélaga, Arion banka, Samtök Iðnaðarins, ELKO, IKEA, grunnskóla o.fl. aðila.

Verndari Nýsköpunarkeppni grunnskólanna er forseti lýðveldisins, Guðni Th. Jóhannesson.

    Tilgangur og markmið NKG

  • Virkja sköpunarkraft barna í landinu

  • Gera börnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og þroska hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir

  • Efla og þroska frumkvæði þátttakenda í NKG og styrkja þannig sjálfsmynd þeirra

  • Efla nýsköpunarstarf í grunnskólum og vekja athygli á hugviti barna í skólum og atvinnulífi

    Framtíðarsýn NKG

  • Er að fjölga grunnskólum sem taka þátt – allir grunnskólanemendur landsins eiga að hafa tækifæri til að senda inn hugmynd

  • Að það verði tengiliður frá hverjum grunnskóla sem sinnir móttöku gagna og kemur upplýsingum til kennara og nemenda skólanna

  • Að tryggt verði rekstrarfjármagn til framtíðar í samstarfi við ríki, stofnanir og fyrirtæki