FabLab – stafræn smiðja hugmynda
Fab Lab er stytting á enska heitinu ,,fabrication laboratory” og er stundum kölluð stafræn smiðja á íslensku. Markmið með smiðjunum er að hvetja einstaklinga og frumkvöðla til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika, skapa tækifæri til vinnu við frumgerðasmíð og vöruþróun með því að bjóða upp á aðgang að stafrænum framleiðslutækjum og búnaði af ýmsum toga.
Í Fab Lab smiðjum eru kennd undirstöðuatriði stafrænnar framleiðslutækni; frá þrívíddarhönnun, til framleiðslu hluta og forritunar með hjálp tölvustýrðra tækja og tóla. Kennarar, leiðbeinendur og nemendur eru þjálfaðir til að koma stafrænni framleiðslutækni enn betur inn í skólakerfið og skapa aukin tækifæri fyrir ungt fólk til að tileinka sér færni 21. aldarinnar.
Sjá nánar HÉR
Skólar
Mikil samvinna er milli Fab Lab smiðjanna og skólanna í nágrenni þeirra. Áfangar í framhaldsskólum og greinar í grunnskólum eru kenndar í smiðjunum; áfangar þar sem áhersla er lögð á stafræna framleiðslu, hönnun, nýsköpun, tölvulæsi/leikni, rafeindatækni og forritun. Innan Fab Lab Ísland er mikil áhersla lögð á að þjálfa kennara – sem síðan þjálfa nemendur sína fyrir vegferð um hina skapandi veröld Fab Lab. Haldin eru sérstök námskeið fyrir kennara og opnir þjálfunartímar. Heimasíðu fyrir kennara haldið úti auk þess sem stuðlað er að virkni og samstarfi milli kennara í gegnum samskiptamiðla.