Hvernig undirbýrðu nemendur fyrir NKG og hvernig er hægt að innleiða nýsköpunarkennslu inn í skólastarfið?

Hvernig er kennsluháttum og skipulagningu kennslustunda háttað hjá öðrum kennurum.  Hér eru tekin nokkur dæmi úr umsóknum í Vilja – hvatningarverðlaun kennara

Vilji 2024: Margrét Arna Vilhjálmsdóttir og Októvía Edda Gunnarsdóttir kennarar í Snælandsskóla

Hvernig er kennsluáætlun háttað?

Nemendur á miðstigi fá 6 vikna þemalotur yfir veturinn og ein sú lota heitir Nýsköpun og hönnun. Hver árgangur fær þá 10 kennslustundir á viku í 6 vikur í því fagi. Við tengjum loturnar við námsefni hvers árgangs eftir því sem við á. Þannig var 7. bekkur í tveimur hópum þar sem annar hópurinn undirbjó sig fyrir NKG og Nýsköpunarkeppni Snælandsskóla en hinn hópurinn lærði um Evrópu með áherslu á nýsköpun og hönnun. Allir árgangarnir fylltu út umsókn fyrir NKG og flestir nemendur völdu að senda hana inn. Allir nemendur munu taka þátt í Nýsköpunarkeppni Snælandsskóla, sýningu og keppni, þar sem hugmyndir þeirra eru kynntar með plakötum, módelum og myndböndum.

Hvernig er skipulagningu kennslustunda háttað?

Nýsköpun og hönnun í 7. bekk

Nemendum var skipt í tvo hópa í sínum bekkjarstofum þar sem í annarri stofunni var kennt um Evrópu og í hinni var undirbúningur fyrir nýsköpunarkeppnirnar. Nemendur voru hálfa lotuna í hvoru þema, þ.e. 3 vikur. Nemendur höfðu aðgang að verkefnalýsingum, kennsluefni og hópaskiptingum á Google Classroom og við hvöttum þau til að sýna sjálfstæði og frumkvæði í vinnu sinni. Við lögðum einnig áherslu á leiðsegjandi endurgjöf og fórum reglulega yfir stöðu verkefna með nemendum.

Lýsing á framkvæmd / verkáætlun Nýsköpun og hönnun í 7. bekk

Evrópa: 3 stöðvar, vika hver. Nemendur vinna tvö til þrjú saman. Verklýsingar á Google Classroom sem nemendur vinna eftir.

  1. Frægð og frami – Nemendur fá úthlutað land í Evrópu og kynna sér hönnun, uppfinningar og frægar manneskjur frá landinu. Setja upp plakat í Canva.

  2. Minjagripir – Nemendur fá úthlutað land í Evrópu og kynna sér einkenni landsins. Gera hugarkort og hanna og búa til minjagrip út frá því.

  3. Heimsveldin – Nemendur velja sér eitt fyrrum heimsveldi Evrópu, kynna sér það og velja annað hvort að hanna nýtt skjaldamerki og skera út í við með Cricut fjölskera eða gera myndband um heimsveldið.

Nýsköpunarkeppnin: 3 vikur

Fyrsta vikan: Stöðvar í skissuvinnu, hugmyndavinnu og módelagerð. Nemendur vinna að mestu sjálfstætt eftir verkefnalýsingum á Classroom í skissuvinnu og hugmyndavinnu en kennari stjórnar módelagerð. Stuttar æfingar sem kenna mikilvægi nýsköpunar og hönnunar og þjálfa nemendur í að beita hönnunarhugsun.

Vika 2 og 3: Nemendur velja eina hugmynd úr stöðvavinnunni eða gera fleiri æfingar til að fá hugmynd. Nemendur vinna hugmyndina áfram, fylla út umsókn fyrir NKG og útfæra hugmyndina fyrir Nýsköpunarkeppni Snælandsskóla, t.d. plakat og módel.

Nýsköpunarkeppni Snælandsskóla:

Í maí verður haldin í fyrsta skipti Nýsköpunarkeppni Snælandsskóla. Kennarar í samstarfi við umsjónarkennara og nemendur setja upp sýningu og haldin er keppni. Öðru starfsfólki skólans og foreldrum boðið að mæta.

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Við búum til okkar eigið kennsluefni en notumst meðal annars við verkefni frá NKG og önnur nýsköpunarverkefni sem innblástur. Verkefni eru sett upp í Google Slides og Canva og nemendur vinna verkefnin að hluta til í iPad. Allir nemendur fengu sína eigin skissubók til að æfa sig í að skrá niður og skissa hugmyndir sínar. Við notumst við og kennum á ýmis forrit, t.d. Canva, Cricut Design Space og Popplet. Þá eru notuð efni eftir þörfum, t.d. timbur, leir og textíll.

Hvernig tengir þú nærumhverfið við kennsluna ?

Í hönnunaræfingum velta nemendur fyrir sér nærumhverfi sínu og hvernig megi bæta það. Þá eru nemendur hvattir til að ræða hugmyndirnar sínar heima til að fá viðbrögð við hugmyndunum.

Taka nemendur þínir þátt í NKG?

Öllum nemendum var sett fyrir að fylla út umsókn þar sem það er góð æfing en þau gátu svo valið hvort umsóknin þeirra væri send inn. Langflestir völdu að senda inn umsókn.

Markmið nýsköpunarkennslunnar

Helsta markmið nýsköpunarkennslunnar er að efla skapandi- og gagnrýna hugsun. Að nemendur æfist í að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og eflist í að fá hugmyndir og koma þeim á framfæri. Að þau geti ekki bara greint vandamál heldur séð þau sem möguleika fyrir nýsköpun.

Vilji 2022: Ásta S. Ólafsdóttir, grunnskólakennari í hönnun og smíði í Víðistaðaskóla

Hvernig er kennsluáætlun háttað?

Almennt eru nemendur hvattir til frumkvæðis í hönnun í þeim verkefnum sem þeir taka sér fyrir hendur. Þannig er aldrei ein fyrirfram ákveðin fyrirmynd sem allir herma eftir, allir hafa val um að breyta og bæta. Í 6. og 7. bekk taka allir nemendur þátt í NKG. Í 7. bekk hanna nemendur leiktæki þar sem markmiðið er nýsköpun. Síðan eru leiktækin sett saman í einn leikvöll og kennurum boðið að koma og sjá. Í 8. bekk hanna allir nemendur smáhýsi með umhverfisvitund að leiðarljósi. Farnar eru vettvangsferðir eftir því sem aðstæður leyfa og skoðuð leiktæki, byggingar og jafnvel landspildur sem við veltum fyrir okkur hvort nýta mætti betur.

Hvernig er skipulagningu kennslustunda háttað?

Almennt vinna nemendur eða hópar sjálfstætt að sínum verkefnum, hver á sínum hraða.
Nemendur eru sjálfstæðir, hvattir til að nýta sér tæki og efnisveitu og fá kennslu sem gefur þeim sjálfstæði í vinnubrögðum.
Verkefnin eru rædd í minni hópum, þarf sem endurgjöf er hugsuð til þess að veita innblástur og vera hvatning.”

Lýsing á framkvæmd / verkáætlun

Svo leikvöllur sé tekinn sem dæmi, þá hefst hönnun leiktækjanna á vettvangsferð þar sem ólík leiktæki eru skoðuð. Einnig eru leiktæki skoðuð á veraldarvefnum fyrir innblástur, bæði litlir hefðbundnir leikvellir og stórir framtíðarleikvellir. Nemendur vinna saman í hópum en sjálfstætt ef þeir vilja frekar. Nemendur eru hvattir til að hanna leiktæki sem þeir hafa aldrei séð áður, eitthvað sem gefur alveg nýja upplifun, en byggir hugsanlega á einhverju gömlu eða hefðbundnu. Í hönnunarferlinu köstum við hugmyndum fram og til baka, teiknum leiktækin og gerum síðan prótótýpur. Þá eru alskyns efni nýtt, allt mögulegt sem fellur til. Leikvöllurinn er svo settur saman og lóðin ef til vill útfærð og skreytt. Síðan er kennurum og áhugasömum boðið á kynningu þar sem hver hópur segir frá sinni hugmynd. Þegar verkefninu er lokið fá nemendur í 1. – 4. bekk leiktækin í sína vörslu og leika með þau í frístund þangað til þau enda í endurvinnslutunnum.

Svo smáhýsin séu tekin sem dæmi þá er markmiðið að nemendur öðlist vitund um hversu smátt sé mögulegt að búa en hafa samt allt til staðar sem skiptir máli, og þannig huga að umhverfinu og náttúrunni því þangað sækjum við allan efniviðinn og nauðsynlegt er að fara betur með til þess að ganga ekki á auðlindir jarðarinnar. Um leið tengja nemendur við stærðfræðikennslu í hlutföllum því húsin eru hönnuð í mælikvarðanum 1:20. Eftir því hvernig gengur hjá hverjum og einum nemanda hefur hann svo val um að hanna innréttingar og skreyta húsið sitt, eða velja sér annað verkefni. Lágmarkskrafa er að hafa hannað hús sem hlutfallslega lítur rétt út, hefur hurð, glugga, og rétta lofthæð. Þá þarf að skila grunnmynd í 1:20 og módeli sem yfirleitt er unnið úr pappa í 1:20. Flestir halda áfram og hanna rúm, sófa, sjónvarp og innréttingar, jafnvel mála, skreyta og búa til litlar plöntur. Þannig getur verkefnið verið flókið í upphafi og orðið svo skemmtilegt þegar á líður. Nemendur hafa svo val um að taka húsin heim eða gefa þau 1. – 4. bekk í frístund.”

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Efnisveita með blöðum og litum. Allir eru hvattir til að hanna og teikna fyrst hugmyndina sína áður en byrjað er að smíða.
Tímarit, veraldarvefurinn td vefur NKG, sýnishorn, efnisveita með timbri, pappa, smáhlutum, fundnum hlutum, og málning.
Eftir því sem við á eru unnin hugarflugskort. Nærumhverfi.

Hvernig tengir þú nærumhverfið við kennsluna ?

Á Víðistaðatúni eru fjölbreytt leiktæki sem veita innblástur, þar er líka verið að byggja stór hús á litlum reitum og höfum við spáð í það. Einnig höfum við heimsótt Siggubæ sem er pínulítið safnhús og sýnir hvernig fólk gat búið smátt í gamla daga en samt haft allt til alls og átt mjög kósí heimili. Fjöruferðir eru lika alltaf vinsælar og veita innblástur í ýmsa listsköpun.

Markmið nýsköpunarkennslunnar 

Markmiðið er að efla sjálfstæða og gagnrýna hugsun, hugmyndaauðgi, framtakssemi, og sjá alltaf tækifæri og lausnir við hverju verkefni. Þannig hugarfar nýtist í öllu námi og í lífinu sjálfu, og hjálpar nemendum að setja sig í fótspor annarra.

Hverjir koma að verkferlinu innan skólans og hvað eru margir nemendur sem fá nýsköpunarkennslu?

Ásta. Allir nemendur í 6. og 7. bekk vinna nýsköpunarverkefni. Síðan hefur hver og einn frjálst val um að taka formlega þátt í keppninni. Sumir eru mjög áhugasamir og senda inn margar tillögur. Þrjátíu og fimm hugmyndir fóru inn í núverandi keppni.

Vilji 2020: Kristín Erla Ingimarsdóttir í Flúðaskóla

Hvernig er kennsluáætlun háttað?

Unnið er í ákveðnum þemum og verkefnum sem hafa einhverja þýðingu fyrir nemandann. Einnig er Kristín dugleg að grípa tækifærið og vinna með verkefni sem tengjast málefnum líðandi stundar.

Hvernig er skipulagningu kennslustunda háttað?

Viðfangsefni kennslustunda eru mjög fjölbreytt og tekið er á ýmsum þáttum sem koma að nýsköpun. Nemendur vinna mikla hugarflugsvinnu og hönnunarhugsun er stór þáttur í kennslunni. Leitast er við að hafa fjölbreyttar kennsluaðferðir og efla sjálfstæði nemenda sem og samvinnu.

Lýsing á framkvæmd / verkáætlun

Nýsköpunarkennsla hefur verið við lýði í Flúðaskóla í hátt í tvo áratugi og hafa allir nemendur sem stundað hafa nám við skólann á þeim tíma fengið nýsköpunarkennslu. Kennslan er hugsuð sem ákveðið ferli og hafa margir fengið kennslu í nýsköpun í einhvers konar samfellu, þ.e. í formi smiðju eða fasta tíma í töflu, nokkur ár í röð. Haustið 2018 var sett á fót snillismiðja (makerspace) í skólanum og hefur nýsköpunarkennslan að einhverju leyti fallið inn í hana.

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Kristín hefur unnið með námsefni sem gefið hefur verið út af Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Menntamálastofnun. Auk þess er hún mjög dugleg að viða að sér alls kyns efni og þekkingu í gegnum netið, alls kyns hönnunarsíður, pinterest og svona mætti lengi áfram telja. Þá er hún dugleg í að kynna sér nýja tækni og fljót að aðlaga sig að nýjungum.

Hvernig tengir þú nærumhverfið við kennsluna ?

Nýsköpunarkennslan nýtir umhverfið vel til t.d. gagnaöflunar og eins eru fyrirtæki heimsótt og starfsemi þeirra kynnst. Þá hafa nemendur í snillismiðju farið í Fablab á Selfossi og nýtt sér starfsemina þar.

Markmið nýsköpunarkennslunnar 

Í nýsköpun læra nemendur vinnubrögð sem gerir þá hæfari til að móta umhverfi sitt, tileinka sér aðferðir, læra að greina þarfir og greina lausnir, vinna afurðir úr lausnum og prófa þær. Lögð er áhersla á samvinnu nemenda, frumkvæði og ábyrgð. Unnið í hópavinnu sem og sjálfstætt.

Hverjir koma að verkferlinu innan skólans og Hvað eru margir nemendur sem fá nýsköpunarkennslu?

Kristín hefur borið höfuð og herðar í allri skipulagningu og framkvæmd en hefur notið liðsinnis samstarfsfélaga, þó einkum síðustu ár, í gegnum snillismiðjuna. Þá hafa skólastjórnendur verið mjög jákvæðir í garð nýsköpunar og stutt vel við kennsluna. Í gegnum tíðina hafa allir nemendur skólans fengið nýsköpunarkennslu og nú í vetur er í fyrsta sinn nýsköpun á yngsta stigi. Nemendur á miðstigi og unglingastigi eru með snillismiðju fasta í stundatöflu.

Vilji 2019: Þórdís Sævarsdóttir í Dalskóla

Hvernig er kennsluáætlun háttað?

1. Hvað er nýsköpun? Almennt spjall um hugtakið og merkingu.

2. Skoðunarferð: Stuttur göngutúr og skoðum umhverfi, form, liti, efni, nýtni og söfnum í hugmyndabankann og fyrir innblástur. 2. Rifrildi – rífum í sundur gamla hluti. Mjög vinsælt. (ATH. Hér er orðið Rifrildi notað meðvitað og fær þar með örlítið dýpri og jafnvel jákvæðari merkinu, að taka í sundur til að skilja betur, og er þannig beint inn á samræður og rökræður)

3. Uppfinningafólk: RÆðum uppfinningar þess, hvernig þeim datt það í hug, hvað þau þurftu að gera margar tilraunir, hvernig þau gáfust ekki upp, um jákvætt viðhorf þeirra og hvernig samvinna hefur hjálpað og er stundum nauðsynleg.

4. Eigin hugmyndir: Þær geta ýmist komið án fyrirhafnar, stundum út frá þeim efnivið sem er fyrir framan nemendur eða nemendur þurfa að gefa sér tíma til að hlusta á og taka eftir eigin hugmyndum. Teiknað á blað og hugmyndin hugsuð á næsta stig hvað varðar virkni, efni og tilgang, jafnvel út frá siðferði og sjálfbærni.

5. Þarfagreining og umhverfið okkar: Spjöllum um umgengni við umhverfið, ruslvanda heimsins, þarfagreinum og reynum að finna lausnir.

6. Eigin hugmyndir: Teikning, blöð og blýantar eða Módel. Hugmyndir koma ýmist fyrirhafnarlaust, út frá því efni sem er nemendur sýnilegt eða nemendur þurfa að gefa sér tíma í þarfagreiningu og lausn. Samvinna, spjall, góð tónlist og spil frá INNOENT eru notuð til að leysa málið þegar nemendur verða fastir, eða til að koma flæði í kennslustund aftur í gang. Ef dagsformið gefur tilefni til byrjar kennsustund á einum dansi eða regnboganuddi til að virkja gleði og samhug.

Hvernig er skipulagningu kennslustunda háttað?tími, 2 kest:

Leitast er við að hafa hverja kennslustund í góðu flæði. Hver kennslustund er svolítið ólík miðað við hvar í kennsluáætlun við erum stödd. Misjafnt er eftir hópum og stundum skipulagi skóladaga, hversu hratt og vel er farið yfir kennsluáætlun. Hver kennslustund byrjar á spjalla við nemendur, nema þær sem nemendur koma inn og biðja um að fá að halda beint áfram síðan síðast. Þar sem kennslustundir eru skipulagðar á tíma rétt fyrir samsöng endar hver kennslustund á að syngja saman með fleiri nemendum.

Lýsing á framkvæmd / verkáætlun

Ég hef notað kennslufræði nýsköpunarkennslu; sem byggir á þarfagreiningu og lausn, að finna vandamál og finna svo lausnir við þeim og að þróa hugmyndir áfram. Einnig eru að sjálfsögðu aðrar hugmyndir fullgildar, þessar hugmyndir sem lýstur niður eins og þruma úr heiðskíru. Einnig er farið yfir þróun hugmynda og hvernig það að taka gamla hugmynd og þróa hana á næsta stig er líka nýsköpun. Við ræðum virkni heilans og hvernig allir hafa margar hugmyndir á hverri mínútu og nauðsyn þess að hlusta á hugmyndirnar og innsæið. Unnið er eftir kennsluáætlun og leitast er við að hafa kennslustund í góðu flæði. Ég nota spjall, góða tónlist, dans, regnboganudd (þar sem nemendur þekkjast vel) og INNOENT spil til að efla flæði kennslustundar, huga, samskipta og fleira þó hver hópur skapi auðvitað sitt eigið vinnuferli og enginn hópur sé eins.

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Ég nota kennslugögn og kennsluaðferðir sem hafa þróast í Uppfinningaskóla INNOENT og eru grunnur að kennslufræði INNOENT sem er í þróun.

– Rifrildi: Rífum í sundur gamla hluti, mest raftæki, skoðum og nýtum.

– Netið/Uppfinningafólk: Kynni Thomas Edison og fleira uppfinningafólk fyrir krökkunum og við ræðum hvað þeir þurftu að prufa mörgum sinnum til að fá uppfinninguna til að virka. Við ræðum líka hvernig samtal við annað uppfinningafólk og jafnvel vini getur hjálpað í ferlinu og hvernig hver tilraun var ekki álitin sem mistök heldur lærdómur.

– Blöð, liti, blýanta til að vinna með eigin hugmyndir.

– Tónlist í 432Hz sem er með rétta bylgutíðni til að efla hugarvirkni, sköpun og vellíðan.- Verkfæri frá INNOENT.- Pappír eða annað sem til fellur.

– Spil frá INNOENT.

Hvernig tengir þú nærumhverfið við kennsluna ?

Ég fer með nemendur í göngutúr til að líta í kringum sig, taka eftir uppfinningum, formum, efni og litum. Við ræðum hvernig það sem er sjálfsagt í dag, hús, bíll, rafmagn o.s.frv var einu sinni ný hugmynd og nýsköpun. Við ræðum umhverfismál og reynum að finna á þeim lausnir. Við ræðum hvernig hver hugmynd þarf að vera sjálbær/hafa ,,gott gildi´´/ uppbyggileg fyrir allt líf og samfélag. Við endurnotum gamla hluti og búum til módel.

Markmið nýsköpunarkennslunnar

Að virkja og efla hugvit hvers nemanda. Að gera hvern nemanda meðvitaðann um eigið hugvit og möguleikana sem það gefur. Að efla nemendur í að hafa trú á eigin hugviti, trú á eigin hugmyndum og fylgja þeim eftir. Að efla nemendur í jákvæðni og lausnahugsun, og að uppfinningafólk líta á mistök sem lærdóm fyrir næsta stig í ferlinu. Að gera nemendur kunnuga því að taka gamla hugmynd og þróa hana. Að efla nemendur í að nýta lausnahugsun og samvinnu til að takast á við hvert stig í sköpunarferlinu og eftirfylgni.

Vilji 2019: Halla Leifsdóttir í Breiðagerðisskóla

Hvernig er kennsluáætlun háttað?

Í meistararannsókn minni vann ég að samþættingu á núvitundarástundun og nýsköpunarmennt. Ég studdist við kennsluáætlun Innoent Education á Íslandi í nýsköpunarmennt, en áætlunin tekur yfir 12 skipti.

Hvernig er skipulagningu kennslustunda háttað?tími, 2 kest:

Í upphafi kennslustunda fóru fram mismunandi núvitundaræfingar í þremur mismunandi aðstæðum og í kjölfarið var tekið til við nýsköpunarmennt í smíðastofu skólans samkvæmt skipulagi kennsluáætlunarinnar.

Lýsing á framkvæmd / verkáætlun

Í stað þess að kenna nemendum hönnun og smíði ákvað ég að kenna nýsköpunarmennt með nýstárlegu sniði, hvar ég fléttaði saman núvitundarástundun og nýsköpunarmennt. Í ljós kom að til þess að slík samþætting eigi að geta gengið þarf aðstæður sem styðja við núvitundariðkun, með rými sem er hljóðlátt og afmarkað. Nemendur voru hrifnir af nýbreytninni og kusu að nýsköpunarmennt væri partur af hefðbundnu skólastarfi þeirra. Sjá má nánari lýsingu á framkvæmd í meðfylgjandi meistararitgerð.

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Ég studdist við kennslugögn frá Innoent Education á Íslandi. Í núvitundaræfingunum studdist ég við hljóðupptökur af netinu sem Ásdís Ólsen leiddi, en þær spilaði ég í gegn um tölvukerfi skólans.

Hvernig tengir þú nærumhverfið við kennsluna ?

Nemendur voru meðal annars sendir í leiðangur um skólann og unnu í kjölfarið að þarfagreiningu. Enn fremur unnu þeir að þarfagreiningu á sínu eigin heimili.

Markmið nýsköpunarkennslunnar

Ég vildi auðga sjálfa mig sem kennari með því að takast á við nýsköpunarmennt með nemendum mínum. Markmið mitt með samþættingu nýsköpunarmenntar og núvitundarástundunar var að draga úr streitu og stuðla að auknum sköpunarmætti nemenda í nýsköpunarferlinu. Til hliðsjónar voru fyrri rannsóknir, þar sem tengsl núvitundar við ýmis konar þrautalausnir og sköpunarmátt voru könnuð.

Vilji 2018: Arna Björk H. Gunnarsdóttir - Vesturbæjarskóli
Hvernig er kennsluáætlun háttað?

Veturinn 2017-2018 – 4 kennslustundir – nýsköpunarkynning – 5. og 6. bekkir

Í Vesturbæjarskóla er boðið upp á val tvisvar sinnum í viku, tvær kennslustundir í senn. Í valtímum er boðið upp á alls konar verkefni sem telst ekki til hefðbundins bóknáms. Þau verkekefni sem er boðið upp á eru til dæmis vinabönd, þrautir, ratleikir og ýmis skapandi vinna. Í vetur bauðst mér að nýta þessa tíma fyrir nýsköpunarmennt.

Ég lagði upp með að kynna nýsköpunarmennt fyrir nemendum og hvetja þá til að taka þátt í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna.

Hvernig er skipulagningu kennslustunda háttað?

  1. tími, 2 kest:

Kynning á nýsköpun og hafist handa við hugmyndavinnu.

Ég var með glærusýningu á skjávarpa. Þar fór ég yfir stuttlega hvað nýsköpun er, hvernig hún verður til og hvort að allt sem er búið til getur kallast nýsköpun.

Ég sýndi þeim myndband frá Nýsköpunarkeppninni árið 2016 https://www.youtube.com/watch?v=CgZevnXVl68

Það kveikti vel í þeim að sjá myndbandið. Að sjá önnur börn gera eitthvað skemmtilegt og að allir hafi jafnan þátt til þáttöku var eitthvað sem náði til þeirra. Þeim þótti áhugavert að vita til þess að þau þurfa ekki að vera klár í reikningi, fótbolta eða málfræði, það er nóg að vera með hugmynd til að taka þátt og eiga möguleika 🙂

Hugmyndabók (fylgiskjal 1): Áður en við hófumst handa við hugmyndavinnuna, bjuggum við til litlar bækur. Bækur sem passa í rassvasa, því allir uppfinningamenn og konur þurfa að eiga hugmyndabók til að grípa í sem þeir skrifa eða teikna hugmyndir sínar eða hugljómanir í.

Verkefni – þarfaleit og hugmyndir: Verkefnið sem nemendur fengu var tvíþætt, í frysta lagi að taka bókina með sér heim og yfir 2-3 daga áttu þeir að velta fyrir sér þeim vandamálum sem þeir rekast á í daglegu lífi.

Í öðru lagi að skrifa niður allar hugmyndir eða hugljómanir sem þeir fengju yfir tímabilið. Þeir áttu að hripa niður eða rissa í bókina og reyna svo að finna góðar lausnir á vandamálunum/þörfunum í næsta tíma og hefja hugmyndavinnuna. Margir nemendur gátu hafist strax handa en aðrir þurftu lengri umhugsunartíma.

Eftir glærukynninguna afhenti ég þeim hugmyndablað (fylgiskjal 2). Allir nemendur byrjuðu að fyllta út blaðið. Það var í rauninni ekki erfitt fyrir nemendur að fá hugmyndir, flest þeirra ganga með einhverjar óljósar hugmyndir í maganum án þess að vita það. Þegar þeir settust svo niður göldruðust fram ótrúlegar hugmyndir frá nemendum. Sumar hugmyndirnar algjörlega frábærar á meðan aðrar voru óraunhæfar en BANNORÐIN hjá okkur voru “en þetta er til” eða “það er búið að gera þetta”.

Það er ferlið sem ég var að leiða nemendur í gegnum. Að fá hugmynd og skoða hana, teikna, lýsa með orðum og spá í það hvernig þessi hlutur gæti mögulega orðið til, því við vitum aldrei hvort að hugmyndin okkar er góð eða ekki og af óraunhæfum hugmyndum geta sprottið fram alveg nýjar hugmyndir eða hugsun sem er betri en upphaflega hugmyndin. Það má ekki loka á neitt. Allar hugmyndir eiga það skilið að vera skoðaðar og sumar jafnvel verða að raunveruleika en við vitum ekki fyrr en við prófum. Það er fyrsta skrefið “að vera óhrædd við að prófa”.

  1. tími, 2 kest:

Í þessum tíma sýndi ég nemendum vefsíðu þar sem hugmyndir frá börnum höfðu verið búnar til, fóru kannski ekki alla leið í framleiðslu en hugmynd varð til og einhver bjó hana til. Hér er vefsíðan sem ég notaði: https://www.boredpanda.com/kids-inventions-turned-into-reality-inventors-project-dominic-wilcox/

Síðan héldu nemendur áfram að vinna að hugmyndinni sinni.

Nemendur voru áhugasamir, mér fannst þetta frábært tækifæri til að kveikja áhuga á nýsköpun, hver veit hvort að næsta uppfinningakona Íslands eða næsti uppfinningamaður Íslands leynist í þessum hópi?

Þegar hugmyndin var tilbúin, var hún hengd upp fyrir framan smíðastofuna og fékk að hanga þar þar til næsti hópur tók við og svo koll af kolli. Smíðastofan er staðsett við hlið fataklefans og nemendur stöldruðu oft við til að skoða hugmyndir hvers annars. Þeir voru mjög spenntir fyrir því að sjá hvað galdraðist í hverjum tíma.

Lýsing á framkvæmd / verkáætlun

Markmið skólans var að senda sem flestar hugmyndir í nýsköpunarkeppnina. Skólastjórinn bað mig fyrir þessu verkefni.  Ég hagræddi kennslunni þannig að allir nemendur í 5. og 6. bekk Vesturbæjarskóla fengju kynningu á nýsköpunarmennt.

Þetta er fyrsta árið sem Vesturbæjarskóli ræðst í þetta verkefni og ég er að þreifa mig áfram í vinnuferlinu.

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Skjávarpa

PowerPoint, Vefsíður, Youtube, Ritföng, Hugmyndablað,  Hugmyndabók

Hvernig tengir þú nærumhverfið við kennsluna ?

Nærumhverfið tengist þarfaleitinni. Þá nemendur eða fullorðnir upplifa einhverja þörf sem þarf að laga eða bæta í sínu nærumhverfi þá sprettur upp hugmynd að einhverju nýju til þess að lagfæra ástandið. Þetta getur átt við öll svið mannslífsins frá því að finna upp lækningu við sjúkdómum eða til þess að nota nýja aðferð við að bursta tennurnar eða klæða sig í sokka.

Ég leiðbeindi mínum nemendum þannig að ALLT sem þeir sjá, finna eða snerta getur orðið tilefni til nýsköpunar. Glasið sem þeir drekka úr eða vettlingarnir sem þeir nota. Allt getur orðið tilefni til þess að finna upp nýtt eða betrumbæta gamalt.

Markmið nýsköpunarkennslunnar

Markmið kennslunnar:

Að hvetja nemendur til nýrrar hugsunar

Að nemendur kynnist og tileinki sér aðferðir og hugmyndafræði nýsköpunar

Að nemendur geti greint einfaldar þarfir í umhverfi sínu og rætt nokkrar lausnir til að betrumbæta

Markmið hugmyndavinnunnar:

Að nemendur geti sýnt góða nýtingu þeirra efna sem unnið er með

Að nemendur geti útskýrt hugmyndir sínar með því að rissa upp einfalda vinnuteikningu

Að nemendur nýti þær vinnuaðferðir sem þeir hafa lært í listgreinakennslu skólans til að koma hugmyndum sínum frá sér með viðeigandi hætti.

Vilji 2018: Sædís S. Arndal - Hofsstaðaskóli
Hvernig er kennsluáætlun háttað?

Sett er fram skipulag 6 til 7 60 mínútna kennslustunda. Byrjað er á kynningu á nýsköpun og hugmyndavinnu. Hvað er góð hugmynd og hvað getur hún gefið af sér. Bæði hvað varðar vinnusparnaður og að möguleikar á tekjum af afurð sem komið er á framfæri. Gagnrýnin hugsun og sköpun er höfð að leiðarljósi. Hafist er handa við hugmyndavinnu bæði í kennslustundum og heima við. Verkleg vinna felst í teikningum og lýsingum bæði á blöð og veggspjöld. Nemendur kynna verkefni sín fyrir hópnum og veggspjöldin eru hengd upp til sýnis. Kennslan er bæði hópkennsla og einstaklingsaðstoð og hvatning.

Hvernig er skipulagningu kennslustunda háttað?

Tekið er á móti nemendum og rætt við þá um hvað þeir hafa hugsað um og unnið frá því í síðasta tíma. Lagt er upp með að nemendur vinni u.þ.b. þrjár hugmyndir á milli kennslustunda. Þeir kynna þær og vinna nánar með þær í kennslustundum. Hver og einn fær að tjá sig, fær stuðning og hvatningu frá kennara og samnemendum.

Lýsing á framkvæmd / verkáætlun

Í 5. bekk fara kennslan fram í s.k. Hringekju. Nemendur eru 12-14 í hóp á námskeiði, klukkustund á viku í u.þ.b 6 vikur í senn. Kennslan fer þannig fram að fyrst er kynning og umræður um hvað er nýsköpun. Ýmsar hugmyndir eru ræddar og nemendur kynna sýnar hugmyndir fyrir hópnum. Nemendur skrifa lýsingu á hugmynd niður á blað, teikna og útskýra nánar hugmyndina. Því næst gera þeir veggspjald með nánari lýsingu á útliti og virkni hugmyndar. Veggspjöldin eru hengd upp á ákveðinn vegg í skólanum og eru til sýnis og hvatningar fyrir aðra nemendur. Undirrituð sér einnig um smíðakennslu í skólanum og fléttar nýsköpun inn í smíðatíma í 5.- 7. bekk.

Hverjir koma að verkferlinu innan skólans?

Undirrituð, smíða- og nýsköpunarkennari. Umsjónarkennarar eru hvattir til þess að hafa nýsköpunarblöð í kennslustofum svo nemendur hafi alltaf aðgang að þeim fái þeir hugmynd og geti því komið henni á blað og sent í NKG. Umsjónarkennarar og aðrir list- og verkgreinakennarar hvetja nemendur áfram í nýsköpun og hugmyndavinnu hvenær sem gefst.

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Hlutir, myndefni, eldri verkefni nemenda og prótótýpur.

Hvernig tengir þú nærumhverfið við kennsluna ?

Umhverfi og daglegt líf er notað sem hugmyndavaki á þann hætt á ræða við nemendur og fá þá til þess að skoða umhverfi sitt, tæki og tól sem þau nota og umgangast í daglegu lífi. Farið er fram og aftur í tíma til þess að skoða uppfinningar og lausnir sem breytt hafa miklu fyrir samfélagið. Notað er myndefni og nánasta umhverfi skóla og heimila. Samvinna er við Marel sem hefur styrkt nýsköpun í Hofsstaðaskóla um langt árabil.

Markmið nýsköpunarkennslunnar

Markmið nýsköpunarkennslu er að nemendur séu betur læsir á umhverfi sitt, verkfæri, virkni og tækni. Þeir öðlist færni í að hugsa á lausnamiðaðan hátt og sjái tækifæri í að hanna og skapa gagnlega hluti sem komið geta að notum. Þeir geti skoðað umhverfi sitt á gagnrýninn hátt og séð tækifæri til að gera úrbætur. Þeir geti sett fram sjálfstæðar og ígrundaðar hugmyndir og útskýrt þær í ræðu og riti.

Þorvaldur Hermannsson og Hrafnhildur Georgsdóttir - Salaskóli
Hvernig er kennsluáætlun háttað?

Nemendur á miðstigi hafa verið í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í allan vetur, 4 kennslustundir á viku. Hafa unnið fjölbreytt verkefni, t.d. hannað frumgerð að borðspilum, hafa búið til nýja hluti úr herðatrjám, hafa unnið verkefni út frá orðunum nýsköpun og frumkvöðull, notað tækni og upplýsingamennt, unnið verkefni sem tengjast ferlinu frá hugmynd að tilbúinni afurð/vöru ofl.

Annað verkefni sem einnig er í gangi hjá okkur í 6. og 7. bekk í vetur er stórt þróunarverkefni, nýsköpun og frumkvöðlahugsun. Partur af verkefninu felst í því að í vor verður sett upp lítið “þorp” í sal skólans þar sem mörg fyrirtæki verða.

Nemendur munu læra ýmislegt um fyrirtæki, störf og þjónustu sem við þurfum í borgum og bæjum, um efnahag, lýðræði, banka, peninga, mismunandi störf, menntun, hvernig maður sækir um vinnu o.fl. Þetta er unnið sem fjögurra vikna þema á vordögum.

Eins og áður segir verður sett um “þorp” í skólanum og munu nemendur sinna einhverju ákveðnu starfi í einn dag. Vinna þarf eftir starfslýsingu og ljúka ýmsum verkefnum, fara jafnvel til “læknis”, á kaffihús, klippingu eða á kjörstað, auk þess að vera almennur þátttakandi í samfélaginu þann dag.

Þorpið verður sett upp eins og hálfgerðir básar. Í hverjum bási verður fyrirtæki. Við erum í sambandi við bæði foreldra og fyrirtæki varðandi vörur og hluti til að hafa í fyrirtækjunum.

Hvernig er skipulagningu kennslustunda háttað?

Smiðjur 4 kennslustundir á viku. Miðstig. Hver nemandi kemur í um 10-12 skipti.

Þorpið. Unnið sem 4 vikna þema í 6. og 7.bekk. 4 kennslustundir á viku. Hver nemandi kemur síðan einn dag í þorpið og sinnir starfi.

Lýsing á framkvæmd / verkáætlun

Smiðjurnar eru kenndar í hefðbundnum kennslustofum. Gögn, tól og tæki notuð við vinnu verkefna í samstarfi við verkgreinakennara. Er í gangi frá ágúst til maí. Þessari vinnu verður vonandi haldið áfram næstu vetur.

Þorpið: Fjögurra vikna þema þar sem nemendur vinna margskonar verkefni. Bjuggum til námsefni sem kallast ég og bærinn minn sem fjallað er um m.a hagkerfi, peninga, skatta, fyrirtæki, banka, lýðræði, menntun og störf, ferilskrá, að sækja um vinnu ofl.

Dagurinn í þorpinu: Nemendur sækja fyrst um starf og mæta svo í þorpið og fá afhenta starfslýsingu sem þeir fara eftir og sinna sínu starfi samkvæmt henni. Þurfa að vinna ýmiss störf tengt sínu starfi. Þeir geta einnig þurft að “fara til læknis”, geta farið í bakaríið í kaffipásunni sinni eða mætt á kjörstað til að kjósa. Yfir daginn hafa þau kort með peningaupphæð sem þau geta ráðstafað yfir daginn. Geta keypt sér raunverulegar vörur eins og til dæmis mat, bakkelsi, drykki, farið í bíó eða fatabúð.

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Eigið námsefni sem við höfum samið sérstaklega fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlakennslu og fyrir þróunarverkefnið „Ég og bærinn minn“.

Hvernig tengir þú nærumhverfið við kennsluna ?

Samstarf við foreldra og fyrirtæki í hverfinu og Kópavogi.

Markmið nýsköpunarkennslunnar

Að efla áhuga á nýsköpun og frumkvöðlahugsun hjá nemendum á miðstigi. Opna augu þeirra fyrir hönnun og leiðum að koma hugmynd í framkvæmd. Gefa þeim tækifæri til að búa til hluti út frá sínum hugmyndum. Gera þau meðvituð um atvinnulífið, fjármál og gefa þeim tækifæri á að spreyta sig í einhverju starfi að eigin ósk. Að efla vitund þeirra á peningum og gildi menntunar.

Vilji 2017: Þórdís Sævarsdóttir, Íris Auður Jónsdóttir, Bryndís Jónasdóttir, Björk Viggósdóttir og Ásta Bárðardóttir - Dalskóli
Hvernig er kennsluáætlun háttað?

Verkefnið er samþætt þemaverkefni sem kennt var tvo daga í viku, 3 kennslustundir í senn, auk list- og verkgreinatíma, á 6 vikna tímabili. Kennt var í tveim árgöngum, 4. og 5. bekk. Þemað var sjálfbærni og nýsköpun, þar sem lögð var áhersla á merkingu fjögurra lykilorða; sjálfbærni, vistspor, ofgnótt og nægjusemi. Einnig var opið að leita samvinnu við tiltekna sérfræðinga, listamenn eða nærumhverfi þar sem við átti. Nýsköpun verkefnisins fjallaði um lausnahugsun til framtíðar og uppfinningar þess efnist til framtíðar.

Hvernig er skipulagningu kennslustunda háttað?

Verkefnið ,,Allt fullt af engu” var tekið fyrir í vísindasmiðju – Vísindin efla og tefla á sex vikna tímabili með möguleika á framlengingu í næstu smiðju. Kennsla skipulögð á 6 vikna tímabili, með áherslu á tvær 3ja kennslustunda lotur í viku + list- og verkgreinatíma. Hver tími hófst á innlögn sem var unnið úr ýmist sameiginlega eða kennara skiptu nemendahóp í smærri hópa á hvern kennara. Kennslustundir voru skipulagðar eftir verkefni dagsins og því algjörlega frjálst flæði á skiplagi tímans í þágu viðfangsefnis.

Lýsing á framkvæmd / verkáætlun

Vika 1: Innlögn og kynning á viðfangsefni og lykilorðum. Umræður.

Vika 2: Vistspor og slóð. Fjallað um og unnið úr; Heimsókn – reiknir o.fl., skoðað út frá nemanda, fjölskyldu, samfélagi, alheimi.

Vika 3: Sjálfbærni. Fjallað um og unnið úr á bæði fræðilegan og listrænan hátt.

Vika 4: Ofgnótt og nægjusemi. Fjallað um og unnið úr. Hugsað í lausnum. Sköpun. Listviðburðir.

Vika 5 og 6: Uppfinningar framtíðarinnar (Makerspace frá INNoent á Íslandi); Tæki rifin í sundur, skoðuð samsetning, Hönnun, Uppfinning, Módelgerð. Listviðburðir.

Vika 6: Endar með sýningu og þátttöku á barnamenningahátíð.

Hverjir koma að verkferlinu innan skólans?

Teymið skipa 5 kennarar skólans. Myndlistarkennari, Textílkennari, Tónlistarkennari og tveir umsjónarkennarar. Í upphafi var öllum áhugasömum boðið að vera með og 4 aðrir umsjónarkennarar sem voru með í umræðuhópi að eigin vali og gátu nýtt sér hugmyndir eða innblástur.

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Kennslugögn: Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt – kvikmynd og Fyrirlesari frá HÍ, Sigurður Eyberg. ýmislegt efni af netinu; Sir Robinson,sameinuðu þjóðirnar,Vanderbilt Háskólinn í Nashville, Tennessee, sorpa.is, Vistsporareiknir af netinu. Makerspace (Sköpunarsmiðja/Gerver) frá INNOENT á Íslandi. Listakonan Steinunn eldflaug. Stuðst var við þýðingu á ,,R-in þrjú”; Reduce, Reuse, Recycle – sem voru úlistuð sem endurminnka, endurnýta, endurvinna.

Hvernig tengir þú nærumhverfið við kennsluna ?

Skólinn hefur mikið óspillt náttúrusvæði og náttúran nýtt til innblásturs og útikennslu.

Verkefnið var tengt inn í aðstæður skólans, eða að verið er að byggja nýtt skólahús, og nemendur komu með hugmynd að ræktunar- og vinnusvæði sem tengist arkitektúr nýja skólans.

Krakkarnir settu upp skiptimarkað til að virkja ,,endurnýtingu” ýmissa hluta og þar með heimilin á svæðinu. Einnig var leitað til sérfræðinga á sviði umhverfismála og sköpunar í Reykjavík.

Markmið nýsköpunarkennslunnar

Að virkja hugvit hvers einstaklings og efla viðhorf í lausnahugsun af ýmsu tagi. Um leið er ýtt undir valdeflingu nemenda og sjálfstæð vinnubrögð.

Verkefnið ,,Allt fullt af engu” leiddi nemendur í gegnum verkfæri nýsköpunarnáms, hugmyndafræði, aðferðir, viðhorf, verklagni og möguleika.

Þórhalla Sigmundsdóttir - Grunnskólinn Hellu
Uppbygging nýsköpunarkennslu þinnar – kennslufræðilegt

Námið verður merkingabært – nemendur sjá að þeirra hugmyndir eru metnar að verðleikum – þau skipti máli.

Fyrsti þátturinn í kennslunni er að fá hugmyndir barnanna um fyrirtækið/hráefnið/framleiðsluvörur með þankahríð. Nemendur finna út hvað þeir vilja vita meira um fyrirtækið. Þessi þáttur myndar spennu og forvitni hjá nemendum. Næsti þáttur er að upplifa og skoða saman fyrirtæki. Svör eru fengin við spurningum sem brenna á nemendum. Þriðji þátturinn er úrvinnsla sem byrjar með þankahríð um hvað við sáum og hvað væri hægt að gera nýtt. Nemendur velja sér hugmyndir og útfæra á sinn hátt. Í lokin þurfa nemendur að koma sínum hugmyndum á framfæri og sanda fyrir máli sínu.

Hvernig tengirðu nýsköpunarkennsluna við námskrá grunnskóla

Kennsla í þessu nýsköpunarverkefni tengist mest skapandi þætti námskrárinnar auk þess sem koma þættir eins og að tjá sig og útskýra hugmyndir sínar sem tengjast lýðræði og tjáningu. Kennari reynir eftir bestu getur að ýta undir forvitni og hvetur til tilrauna. Við reynum að sjá hlutina í öðru ljósi en okkar, hvernig sjá útlendingar fiskin okkar, hvar væri hægt að nota gler í náttúrunni, þarf snakk að vera svona…????? Við hlustum eftir öllum hugmyndum og horfum út fyrir kassann.

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Ritföng, pappír og spjaldtölvur.

Fyrirtæki sem farið var í Samverk, Kökuval, Fiskás, Kartöfluverksmiðjan í Þykkvabæ, prjónaverksmiðjan Glófi.

Markmið í nýsköpunarkennslu þinni

Markmið með nýsköpunarkennslu í 5.-7. bekk.

– Að nemendur kynnist framleiðslufyrirtækjum á heimaslóðum.

– Að nemendur efli með sér skapandi hugsun og frjótt ímyndunarafl.

– Að nemendur eflist í að skýra út og koma frá sér sínum hugmyndum í máli og myndum.

Framkvæmd / Verkáætlun

Áætlað er að verkefnið taki fimm vikur 80 mín hvert skipti.

Tími 1: Unnið út frá eftirfarandi: Hvað vita nemendur um fyrirtækið?! Hvaða upplýsingar getum við aflað okkur á netinu. Hvað langar okkur að vita um fyrirtækið? Hvaða hráefni notar fyrirtækið og hverjar eru framleiðsluvörurnar eða þjónusta fyrirtækisins? Hvaða menntun eða reynslu hafa starfsmenn. Nemendur og kennari hafa þankahríð og punkta hjá sér spurningar sem á að spyrja. Nemendur hvattir til að hugsa um fyrirtækið heima og athuga hvernig það tengist heimili heimili viðkomandi.

Tími 2: Nemendur og kennari fara í vettvangsferð í viðkomandi fyrirtæki og safna upplýsingum og jafnvel sýnishornum af hráefnum og framleiðsluvörum. Teknar eru myndir.

Tími 3-4: Nemendur og kennari hafa þankahríð um framleiðslu fyrirtækisins og punkta hjá sér hugsanlega framleiðsluvörur. Nemendur vinna saman eða stakir að sinni hugmynd og útfæra hana á blað, með helstu upplýsingum um eiginleika, framleiðsluferli, útliti, pakkningu eða annað sem skiptir máli. Nemendur mega skoða sambærilegar vörur á netinu eða aðrar upplýsingar.

Tími5: Nemendur kynna hugmyndir sínar fyrir forsvarsmönnum fyrirtækisins.

Kolbrún Sigurðardóttir - Tálknafjarðarskóli
Markmið í nýsköpunarkennslu þinni

Að virkja nemendur til að frelsa hugann og hugsa út fyrir rammann/boxið, að nemendur efla bæði frumkvæði og sköpunarkraftinn innra með sér, síðast en ekki síst að nemendur öðlist trú á eigin getu og séu tilbúnir til að framkvæma og þróa eigin hugmyndir.

Framkvæmd / Verkáætlun

1.-4. bekkur fara í gegnum 3 daga smiðju þar sem fyrsti dagurinn fer í hugmyndavinnu/skissa og skrifa, annar dagurinn fer í hönnun og útfærslu og þriðjidagurinn fer í að búa til einfalt módel af hugmyndinni. Við förum yfir vinnsluferlið í hönnunarvinnu. Eldri hóparnir fá 6 daga smiðju sem gefur okkur færi á að fara meira á dýptin í smiðjunni þar sem nemendur fá rýmri tíma til að skissa/hanna og framkvæma. Þar fá nemendur raunverulegt rými til að fara yfir hugmyndirnar – gagnrýna og bæta. Eldrihóparnir fara í gegnum hugmyndafræðina og kynnast hugtakinu þarfagreining þar sem þeir velta fyrir sér fyrir hverja þeir eru að hanna, hvers vegna og hvað er það sem nýsköpunin á að bæta eða hver á virknin að vera. Eldri hóparnir enda á því að búa til einföld módel og kynningarplaköt af hugmyndum sínum sem þeir kynna svo fyrir hópnum í lokin.

Hvernig tengirðu nýsköpunarkennsluna við námskrá grunnskóla

Í þessu tilfelli hefur hugtakið “Hugmynd – lausn – afurð” verið mér hugfólgið. Einnig að kenna þeim að tala sig saman til lausnamiðunar. Hver eru framtíðarstörf þeirra? Mögulega afar tækni- og lausnamiðunarvædd. Að nem. sjái hagnýtinguna í þeim námsgreinum sem skólinn býður upp á og geti jafnvel tekið lýðræðislegan þátt í að móta skólastarfið, út frá hugmyndum sínum og því sem þau eru virkilega klár í – fái þau tækifæri – hlutlægum og tjáningarmiðuðum verkefnum.

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Í upphafi lotu fer hugmyndavinna í gang og smám saman viða börnin að sér þau gögn sem þau telja sig þurfa að nota, með leiðsögn eða ábendingum frá kennara, ef þarf. Ég sendi í viðhengi eins mörg gögn og mögulega var boðið upp á, til skoðunar.

Kristín Björg Knútsdóttir - Háaleitisskóli_ Álftamýri
Markmið í nýsköpunarkennslu þinni

Með þörfinni fyrir breyttu eða fjölbreyttara námsmati, fannst mér alveg upplagt að reyna að ná til allra nemenda og þeirra gjörólíku þarfa sem þau hafa, á miðstigi grunnskólans. Mér fannst vanta meiri og betri hugsun á því hvernig góð teymisvinna getur skilað árangri, að hjálpast að innbyrðis til að efla heildina en sleppa allri samkeppnishugsun milli hópa. Að framlag hvers og eins sé mjög mikilvægt og að þau sjálf dæmi verk sín með jafningjamati. Í lokin hef ég fengið prófdómara til að meta verk þeirra út frá þeim forsendum sem þau fengu í upphafi lotunnar: beiðni um verkáætlun, greinargerðarskil o.s.frv. Þau fengu og einnig að vita til hvers ætlast var af þeim, þannig að sá gátlisti nýttist í ferlinu. Í fyrra fékk ég prófdómara úr atvinnulífinu, vísindamann sem er doktor í efnafræði og einnig kennari við Keili- háskólabrú. Hann sá mikla möguleika í verkefnum barnanna.

Framkvæmd / Verkáætlun

Til að byrja með fengu börnin og foreldrarnir kynningu á þessari lotu, “Spilagerð”.

Þá fengu nemendur þau gögn í hendur sem gátu nýst í framkvæmd og úrvinnslu, þannig að þau settu sér strax markmið sem gat verið þeim ljóst að réði ákveðnum úrslitum við lokamat. Leiðsagnarmat var algjör útgangspunktur í þessari lokalotu, sem mér finnst frábær aðferð til að ná árangri og vilja til að gera vel.

Sædís S. Arndal - Hofsstaðaskóli
Uppbygging nýsköpunarkennslu þinnar – kennslufræðilegt

Nemendur í 5. bekk fá kennslu í nýsköpun 1 klst. í senn og koma í 5 skipti. Í fyrsta tíma er innlögn. Rætt er um hvað er nýsköpun og hvers virði það er að fá góðar hugmyndir og að allir geti fengið góðar hugmyndir. Þá tekur við sjálfstæð vinna nemenda. Þeir fá litla minnisbók til þess að hafa á sér og skrá hugmyndirnar sínar í. Þeir kynna síðan hugmyndirnar sínar hvert fyrir öðru. Ég veiti endurgjöf og spyr þau spurninga og fæ þau til þess að hugsa um hugmyndir sínar á gagnrýninn hátt. Nemendur eru hvattir til þess að vera lausnamiðaðir í hugmyndavinnu sinni. Þau vinna þær áfram á veggspjöld sem hengd eru á ákv. vegg í skólanum sem nemendur kalla Gulavegginn. Guli veggurinn er hugmyndabrunnur og kveikja fyrir alla nemendur í skólanum sem njóta þess að skoða og ræða þær hugmyndir sem þar hanga og skapast oft á tíðum mjög skemmtilegar og gagnlegar umræður og gagnrýni á þær. Nýsköpunarvinnan er þar með sýnileg öllum sem starfa í skólanum.

Frá því ég byrjaði að kenna nýsköpun í skólanum hef ég haldið Nýsköpunarkeppni í skólanum, þegar nemendur útskrifast að vori eru veitt verðlaun í keppninni.

Hvernig tengirðu nýsköpunarkennsluna við námskrá grunnskóla

Kennsla í nýsköpun tengist vel inn á grunnþætti menntunar. Þættirnir læsi og sköpun eru sterkir í nýsköpun. Það að vera læs á umhverfi sitt, menningu og samfélag og geta unnið á skapandi hátt með þætti úr umhverfinu, verið sjálfstæður og sjálfbjarga. Móta sér framtíðarsýn og taka virkan þátt í að viðhalda, breyta og þróa samfélagið.

Hvaða kennslugögn notar þú við kennsluna?

Mínar eigin hugmyndir og þekkingu, ýmsa hluti, fréttir og greinar úr bókum og blöðum sem ég kynni fyrir nemendum. Gula vegginn og hugmyndir nemenda.

Markmið í nýsköpunarkennslu þinni

Að vekja nemendur til umhugsunar um nýsköpun, góðar hugmyndir og að þeir geti tjáð og útfært þær.

Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir - Salaskóli
Uppbygging nýsköpunarkennslu þinnar – kennslufræðilegt

Í vetur kenndi ég nýsköpunarmennt í fyrsta sinn. Tók mið af handbókinni af vef nkg: Komdu með í uppfinningarferð. Nýsköpunarmennt. Fengum upplýsingafund í skólanum frá framkvæmdastjóra Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Fór af stað með nýsköpun í tveimur 7. bekkjum frá áramótum að páskum. Ég er umsjónarkennari í öðrum bekknum, en kenni náttúruvísindi og samfélagsfærði í hinum bekknum líka. Ég kynnti mér handbókina og sá að ég gæti einbeitt mér að hugmyndaþættinum, þar sem ég myndi kynna þetta fyrir nemendum og reyna að virkja þau í að nota sínar hugmyndir og sköpunarkraft. Sýndi þeim kynningarmyndbandið af heimasíðu nkg.  Útbjó verkefni með mið af verkefnunum í bókinni og hafði svo lokaverkefni á dagskrá, þar sem nemendur höfðu val um það hvort þau sendu inn verkefni í keppnina eða skiluðu til mín í lokin.

Hvernig tengirðu nýsköpunarkennsluna við námsskrá grunnskóla?

Mín nálgun tengdist fyrst og fremst sköpun, þar sem forvitni, hugmyndaríki og samtal milli nemenda um viðfangsefnið var í fyrirrúmi. Þau gátu ráðið hvort þau ynnu sjálfstætt eða í hóp og áhersla var á að ALLIR gætu orðið uppfinningamenn, þannig ýtti ég undir sjálfstraust þeirra til að vinna verkefnin og þora að koma með sínar hugmyndir.

Ferli hugmynda

Leiðin frá hugmynd að veruleika er lærdómsríkt ferðalag. Skrefin á leiðinni eru kölluð, hugmynd, hönnun og framkvæmd. Í handbók um nýsköpunarmennt, er farið ítarlega yfir hvert skref ásamt því að gagnlegar æfingar eru fyrir hverja þeirra. Handbók um nýsköpunarmennt má nálgast rafrænt hér á síðunni undir flipanum kennarar => kennslu- og stuðningsefni.

Skref 1 – Hugmynd

Á hugmyndastigi hefst hið skapandi ferli, spurningar eru spurðar og forvitni nemenda vaknar. Á þessu stigi finnirðu mismunandi æfingar til að koma sköpunargáfunni í gang. Á þessu stigi er mikilvægt að hafa opið og hvetjandi andrúmsloft þar sem nemendur finna til öryggis þegar þeir tala um hugmyndir sínar. Gagnrýni er stranglega bönnuð. Og mundu því fleiri hugmyndir því betra, þá aukast líkurnar á að finna eitthvað einstakt. Allar hugmyndir eru góðar hugmyndir.

Skref 2 – Hönnun

Þegar hugmyndin er komin á hönnunarstig hefur ein hugmynd verið valin og færður rökstuðningur fyrir úr hópi margra hugmynda. Þá er kominn tími á að þróa hugmyndina og prófa hvort hún þarfnast breytinga. Hér skoðun við hvernig hún nýtist öðrum, virkni, efni og form. Í framhaldinu er gerð frumteiknng eftir bestu getu á blaði eða í tölvu. Næsta skref er að gera frumgerða eða líkan af hugmyndinni og þá erum við þegar komin skrefi nær raunveruleikanum. Stundum virkar hugmyndin ekki eins og til var ætlast, en mistök færa okkur nær takmarki okkar því við lærum mikið af þeim. Oft þarf að hugsa málið betur.

Skref 3 – Framkvæmd

Að fá góða hugmynd er aðeins byrjunin á sköpunarferlinu. Ekki getur hugmyndasmiður einum fundist hugmynd sín frábær, heldur verða aðrir líka að vilja kaupa hana, framleiða, nota hana og selja hana. Þegar hugmynd er komin í framkvæmdarferli þá er mikilvægt að skoða markaðsmálin og hvernig á að koma hugmynd þinni á framfæri. Hérna er gott að staldra við og æfa sig í að rökstyðja kosti hugmyndarinnar, skoða vörumerkjavernd og einkaleyfi. Æfa frásagnartækni og framkvæma einfalda markaðskönnun.

Ofangreindur texti er byggður á texta úr Handbók til nýsköpunar í boði Finnupp