Saga NKG

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) var haldin í fyrsta sinn árið 1992. Paul Jóhannsson fluttist búferlum heim frá Svíþjóð og stofnaði NKG. Heildarfjöldi innsendra hugmynda frá upphafi eru nú komnar yfir 39 þúsund umsóknir (2017). Keppnin hefur verið haldin árlega frá upphafi. NKG er að fyrirmynd sænsku uppfinningarkeppninnar www.finnupp.se. Aðferðafræði og uppbygging hefur verið staðfærð þar sem á við.

Frá árinu 2006 hefur NKG verið í umsjón Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og rekstur og framkvæmd á vegum NKG verkefnalausna. NKG var fyrstu 15 árin að mestu leiti starfrækt í sjálfboðavinnu einstaklinga með ríka hugsjón og ástríðu fyrir eflingu nýsköpunarmenntar á Íslandi.

 Frá miðjum febrúar 2016 er rekstur og framkvæmd NKG á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

 Ítarlegt yfirlit

Saga Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda hefst árið 1987 þegar Lennart Nilsson (LN) frá Svenska Uppfinnarföreningen (SUF) heldur erindi fyrir tilstuðlan Paul Jóhannssonar, um uppfinningar, á vegum Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ). Í framhaldi af því urðu fyrstu umræðurnar um að halda Finnupp keppnina hér á landi en hún er búin að ganga í Svíþjóð síðan 1979.

Árið 1988 var fyrsti kynningarfundurinn haldinn í Tækniskóla Íslands (TÍ). Árið 1989 voru fyrstu kynningarfundirnir fyrir grunnskóla haldnir í Tækniskóla Íslands (TÍ). Þar mættu fulltrúar frá 14 grunnskólum, þar á meðal Tómas Einarsson frá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur (FMR). Tómas setti Guðrúnu Þórsdóttir inní málið. Í kjölfar þess var kynning á nýsköpun í Námsgagnastofnun, Jón Erlendsson frá HÍ, Paul Jóhannsson fluttu erindi þar sem m.a. voru viðstödd Gísli Þorsteinsson og Guðrún Þórsdóttir. En vegna þessara aðila komst NKG á kortið.

Árið 1991 eru umræður um að fá Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur ÍTR með í starfið. Þar kemur Bragi Einarsson inní starfshópinn. Fyrst keppnin fer af stað og ÍTR verður samstarfsaðili. Grunnskóli Akraness tekur þátt í keppninni, fyrstur skóla á landsbyggðinni.

Fyrsta námskeiðið í nýsköpun er haldið í Foldaskóla en Gísli var smíðakennari þar. Bragi, Gísli og Paul héldu fleiri námskeið fyrstu árin. Paul Jóhannsson hafði það hlutverk að fara í aðra skóla til þess að kynna keppnina og aðferðafræðina. Sænska keppnin gaf aðgang af öllum gögnum keppninnar sem varð undirstaðan að gögnum NKG. Þar á meðal kennslugögnum Gísla Þorsteinssonar og Rósu Gunnarsdóttir sem var kennari í Foldaskóla á þessum tíma og varð hluti af starfshópnum snemma ásamt því að verða fyrst allra til að ljúka doktorsnámi í nýsköpunarmennt.

1992 Fyrsta verðlaunaafhending NKG var haldin 1992. Litla uppfinningarbókin hans Braga verður til. Bragi og Guðrún sáu um að koma henni á framfæri í skólum landsins við mikinn fögnuð kennara og nemenda.

1993 Sumarskóli í nýsköpun á vegum ÍTR er settur á laggirnar. Þróunarhópur NKG hefur göngu sína. Vífilfell setur í gang keppni sem kennir börnum að nýta gamla hluti á nýjan hátt. Páll Kr. Pálsson var hvatamaður þeirrar keppni.

1994 Nemendur TÍ koma inní þróunarstarfið með verkefnavinnu. Samtök iðnaðarins koma inní starfið með því markmiði að gera eitthvað úr hugmyndum. Verkefnið Ruslafötukarfan var fyrsta verkefnið en Barnasmiðjan tók að sér smíðina. Foldaskóli verður móðurskóli í nýsköpun. Félag ungra hugvitsmanna verður til 20. apríl.

1995 Guðrún Þórsdóttir kynnir vísir að námsefni sínu. Frumkvæði og markmið í Selja- og Langholtsskóla.

Ýmsir samstarfsaðilar komu að starfinu þessi fyrstu ár og voru þar með áhrifavaldur í sögu keppninnar og framgang hennar. Hluti þeirra hafa sent keflið áfram. Þar má meðal annars nefna til sögunnar Kennaraháskóla Íslands (KHÍ), ÍTR, Fræðsluráð Reykjavíkur. Menningarmiðstöðin í Gerðubergi, Landssamband hugvitsmanna, Sjálandsskóli, Foldaskóli og Hofsstaðaskóli.

 Helstu styrktaraðilar voru Marel og Iðnaðarráðuneytið, sem enn skipa stóran sess í verkefninu.

1997 kemur út fyrsta námsefni Gísla og Rósu, frumkvæði og sköpun.

2000 Heimasíða keppninnar opnuð www.inet.is. Fyrsta vinnusmiðjan haldin. Fyrsta námskeiðið í frumgerðasmíði haldið í Hjallaskóla, 13 börn úr 10 skólum tóku þátt.

2006 Mennta- og menningarmálaráðuneytið tekur við umsjón NKG fyrir tilstuðlan Rósu Gunnarsdóttir og Paul Jóhannssonar.

2007 NKG verkefnalausnir taka við rekstri og framkvæmd NKG. Anna Þóra Ísfold, framkvæmdastjóri og Ólafur Sveinn Jóhannesson, viðburðastjóri.

2008 Ný heimasíða kynnt www.nkg.is. Formlegt samstarf við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands þar sem vinnuframlag í verkferlum keppninnar er afmarkað, húsakostur og framlag. Ferðastyrkur Iðnaðarráðuneytis settur af stað til að jafna aðgengi þátttakenda á landsbyggðinni að viðburðum NKG.

2008 Nýtt logo tekið í gagnið. Hönnuður; Pálmi Einarsson iðnhönnuður og eigandi Geislar hönnunarhús

2009 Pálmi Einarsson hannaði og smíðaði verðlaunagrip NKG í samráði við framkvæmdastjóra NKG. Gripurinn endurspeglar nýtt merki (logo) NKG sem táknar óbeislaða sköpunargáfu sem kemur uppúr ljósperunni á sama tíma og blýanturinn vísar upp til óendanlegra möguleika sem blýantur og blað veita. Gripurinn er einnig hagnýtur, getur nýst sem statíf á skrifborð fyrir blöð eða sem kertastjaki fyrir sprittkerti þar sem loginn lýsir upp merki NKG.

2010 Útgáfa á nýju kennsluefni í nýsköpunarmennt í samráði við framkvæmdastjóra NKG, Þróunarsjóð námsgagna hjá ráðuneytinu, Námsgagnastofnun, þýðanda og staðfærsluteymi. Staðfærsluteymi bókarinnar voru Gísli Þorsteinsson, Svanborg R. Jónsdóttir og Anna Þóra Ísfold, framkvæmdastjóri NKG. Útkoman var handbók í nýsköpunarmennt í boði Finnupp í Svíþjóð, staðfærð að Íslandi. Nýtt kennslumyndband samofið bókinni fór í framleiðslu. Junior Chambers (JCI) á Íslandi hefja samstarf við NKG og undirbúa þátttakendur í vinnusmiðju undir framsögu á verðlaunaafhendingu.

2011 Þróunarnefnd NKG sendir erindi inn í Mennta- og menningarmálaráðuneytið um breytingar á markhópi keppninnar.

2012 Snemma árs er samþykkt formlega að keppnin skuli miða við nemendur í 5. 6. og 7 bekk grunnskóla. Undanþágur fyrir barnfáa grunnskóla og samkennslu eiga þó við.

2012 Farandbikar smærri skóla settur á laggirnar.  Farandbikarinn fer til þess skóla sem sendir hlutfallslega inn flestar hugmyndir miðað við höfðatölu nemenda í 5,. 6,. og 7. bekk.

2013 VILJI- hvatningarverðlaun NKG í boði Si, Sa og MRN. Hugmyndasmiður, Anna Þóra Ísfold, framkvæmdastjóri NKG.

Á hverju ári hlýtur kennari/teymi nafnbótina „ Nýsköpunarkennari/ar grunnskólanna árið 20xx“ ásamt verðlaunum að fjárhæð 250.000kr

 Tilgangur

  • Hvetja kennara til dáða, með viðurkenningu á framlagi þeirra, til nýsköpunarkennslu.

  • Draga fram, deila aðferðum og hugmyndum sem efla sköpunargáfu nemenda í ferlinu frá hugmynd til framkvæmdar og hvetja til þátttöku í NKG.

  • Bæta gæði nýsköpunarkennslu.

  • Efla vitund um nýsköpunarmennt í grunnskólum landsins.

15. febrúar 2016 NKG verkefnalausnir á vegum Önnu Þóru Ísfold og fjölskyldu kveður sátt eftir 9 ára samfelldan rekstur keppninnar. Tölfræðin segir að á þeim tíma bárust 21.000 umsóknir frá 30.000 börnum og unglingum um allt land. Yfir 400 börn og unglingar komu í vinnusmiðju á þessu tímabili. Alls 3000 gestir fögnuðu með okkur í lokahófum keppninnar. Á þessum tíma var grunnur að sterku baklandi lagður til framtíðar. Bakhjarlar keppninnar eru HR, HÍ, Si, IKEA, ELKO og Arion banki aðalbakhjarl keppninnar með skemmtilega viðbót sem Anna Þóra lagði grunninn að, nemendur fara í gegnum viðskiptamódel, kynnast nútíma frumkvöðlum og fá fræðslu í fjármálum. Frá 2010 hafa viðburðir keppninnar verið sérstaklega vel heppnaðir í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, þar sem mannafli frá HÍ og HR leiða saman hesta sína ásamt mikilvægum tengingum eins og JCI á Íslandi með framsögukennslu, Einkaleyfastofa með kynningu á vörumerkja- og einkaleyfisvernd. Hefð hefur skapast fyrir því að verkfræðideildir HÍ og HR komi í kaffitíma með skemmtileg verkefni sín til að auka þekkingu og áhuga þátttakenda í NKG á tækni- og verkfræðinámi.

2016 Nýsköpunarmiðstöð Íslands tekur við keppninni