Nýsköpun snýst ekki bara um uppfinningar, frumgerðir eða keppnir. Hún snýst fyrst og fremst um hugarfar. Um að kenna börnum að sjá tækifæri þar sem aðrir sjá vandamál, að þora að spyrja „hvernig gætum við…?“ og að treysta eigin hugmyndum. Þess vegna skiptir þátttaka í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) máli.
Í NKG fá nemendur tækifæri til að vinna með raunveruleg vandamál úr eigin umhverfi s.s. í skólanum, heima eða samfélaginu. Þeir læra að hlusta, ræða, prófa sig áfram og vinna saman. Það er engin ein „rétt“ lausn og mistök eru ekki endapunktur heldur hluti af ferlinu. Þetta styrkir sjálfstraust, eflir samvinnu og þjálfar skapandi og gagnrýna hugsun sem nýtist í öllum námsgreinum.
Fyrir kennara er NKG öflugt kennslutæki. Verkefnin tengjast aðalnámskrá, styðja við hæfni til framtíðar og skapa lifandi, þverfaglegt nám. Margir kennarar segja að þeir sjái nemendur blómstra sem annars halda sig til hlés -því í nýsköpun er pláss fyrir ólíka styrkleika.
Það þarf ekki að vera flókið að byrja. NKG er fyrir alla skóla, óháð aðstæðum eða búnaði. Hugmyndin er alltaf í forgrunni.
Við hvetjum ykkur til þátttöku!
-Og munið: ef þið viljið aðstoð við að komast af stað, fá kynningu inn í bekk – á netinu eða á staðnum – þá erum við hjá NKG boðin og búin að hjálpa. Hafið samband, jafnvel bara til að spjalla og fá hugmyndir.
Látum hugmyndir barna fá rými!

Snjólfur, nemandi í 6. bekk Árskóla, hannaði mjaltavél sem ber jafnframt sólarvörn á júgur.
Óvenjuleg hugmynd, frumleg hugsun og ótrúlegt ímyndunarafl.
Snjólfur hlaut aðalverðlaun NKG 2025.



