Nýsköpunarkeppni grunnskólanna og Kóðinn 1.0 hafa hafið formlegt samstarf. Kóðinn 1.0 eru forritunarleikar fyrir krakka í 6. og 7. bekk en þar er tekist á við vikulegar áskoranir á micro:bit smátölvunni sem tengjast tölvum, forritum, snjallsímum, internetinu og fleira og fleira. http://krakkaruv.is/heimar/kodinn

Samstarfið felur í sér meðal annars sameiginlegt kynningarstarf og samvinnu á sviði fræðsluefnis og námskeiða/vinnustofur fyrir kennara og nemendur. Er markmið samstarfsins að styðja við mikilvæga uppbyggingu forritunarkennslu á Íslandi og nýsköpun henni tengdri. 

Með samstarfinu opnast nú möguleiki á að þeir nemendur sem taka þátt í forritunarleikum Kóðans, geta sent inn hugmynd sína, samhliða inn í NKG. Þar er ferlið það sama fyrir alla og sama umsóknareyðublað er til staðar(sjá nánar í leiðbeiningum að neðan).

Ef hugmyndir, sem tengjast Kóðanum, komast í úrslit NKG, þá munu hugmyndasmiðirnir  fá aðstoð leiðbeinenda og íhluti á vinnustofunni. Sérstök verðlaun verða svo veitt „NKG – Kóðinn 1.0“ 

Er það von okkar að með samstarfinu, fái enn fleiri nemendur tækifæri til að láta ljós sitt skína samhliða því að efla nýsköpunar- og forritunarkennslu í grunnskólum landsins. 

Nánari leiðbeiningar:

Það á ekki að senda Microbit tölvuna inn í NKG og hún þarf ekki að vera fullmótuð eða full forrituð, – það er gert í forritunarleikunum sjálfum. Nóg er að senda inn lýsingu á  hugmyndinni og þar gildir einfaldlega að „Það eina sem þú þarft að gera er að senda þær upplýsingar sem beðið er um þar. Teiknaðu, leiraðu, föndraðu, smíðaðu eða 3-D prentaðu lausnina þína og ef þú sendir umsókn inn rafrænt, þarftu að setja mynd af hugmyndinni þinni í viðhengi. Viðhengið getur verið mynd sem þú teiknar og tekur mynd af eða teikning sem gerð er í myndvinnsluforriti.“ https://nkg.is/taka-thatt/

Athugið að viðmið dómnefndar NKG og Kóðans eru ekki þau sömu og því á ekki að senda öll verkefni Kóðans inn í NKG, heldur einungis þau sem uppfylla skilyrðin um raunsæi, nýsköpun, hagnýtt gildi og markaðshæfi hugmyndarinnar, sbr.  sp. 4 á https://nkg.is/spurningar-og-svor/. Í Kóðanum hins vegar eru veitt verðlaun fyrir skemmtilegustu, tæknilegustu, mest skapandi og listrænustu verkefnin og hugmyndir: http://krakkaruv.is/kodinn/keppnir

Allar nánari upplýsingar veita Snæbjörn V. Lilliendahl, verkefnisstóri Kóðans(Snaebjorn.Lilliendahl@ruv.is) og Eyjólfur hjá NKG (nkg@nkg.is)