Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur tekið við rekstri og framkvæmd Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) og VILJA hvatningarverðlaunum NKG fyrir kennara.
Eigandi NKG er sem fyrr, mennta- og menningarmálaráðuneytið. Nýsköpunarmiðstöð Íslands sér um rekstur keppninnar í samstarfi við Arion banka, Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Samtök Iðnaðarins , ELKO, IKEA, grunnskóla o.fl. aðila.
Anna Þóra Ísfold fyrrverandi framkvæmastjóri óskaði eftir að fá að snúa til annarra verkefna í samstarfi við ráðuneytið eiganda NKG á liðnu ári og lauk samningi 15. febrúar síðastliðinn. Verkefnið hefur dafnað undanfarin 9 ár í hennar umsjón. Breitt bakland styður nú við verkefnið. Vilji – hvatningarverðlaun fyrir kennara voru sett á laggirnar og verða afhent í þriðja sinn í vor. Skipulag viðburða er í fastmótuðu formi í samstarfi við Arion banka, Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Samtök Iðnaðarins , ELKO og IKEA.
Á síðasta ári bættist nýr vinnusmiðjudagur í viðburði þar sem þátttakendum gefst kostur á að kynnast viðskiptamódelum og hitta frumkvöðla í samstarfi við Arion banka.
Anna Þóra hefur nú fært alla þætti starfsins til okkar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og hlökkum við til að takast á við þetta skemmtilega verkefni, halda áfram að þróa það og efla.
Við viljum þakka Önnu kærlega fyrir hið mikla og góða starf sem hún hefur innt af hendi, til að auka og efla nýsköpunar- og frumkvöðlamennt hér á landi.
Á þessari vorönn eru engar veigamiklar breytingar fyrirhugaðar á keppninni og stefnt er að því að halda áður auglýstu fyrirkomulagi og dagskrá.
Minnt er á að enn er opið fyrir umsóknir, en skilafrestur innsendra hugmynda er 11. apríl 2016.
Við hlökkum til að takast á við þetta mikilvæga verkefni og vonum að þetta sé upphafið að árangursríku og farsælu samstarfi, við öll þau sem áhuga hafa á nýsköpun og frumkvöðlamennt. Öll góð ráð eru vel þegin og er öllum er meira en velkomið að koma athugasemdum og tillögum að framkvæmd keppninnar, á framfæri.
Fyrir hönd NKG,
Eyjólfur B. Eyjólfsson – Verkefnisstjóri Nýsköpunarkeppninnar