Átak til að efla forritunarkunnáttu íslenskra barna
Fulltrúar mennta- og atvinnulífs hafa sameinast um átaksverkefni til þess að vekja áhuga barna á forritun og kenna þeim á einfaldan og skemmtilegan máta að forrita. Menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, kynnir verkefnið í dag kl. 11.00 í húsnæði Fab-Lab í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Austurbergi 5. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Menntamálastofnun og RÚV hafa tekið höndum saman um átaksverkefnið með það að markmiði að efla forritunarkunnáttu íslenskra barna, auka vitund um mikilvægi forritunar í daglegum störfum, efla rökhugsun og stuðla að auknum áhuga á tækni- og iðngreinum.
Menntamálastofnun. Markmiðið með Kóðanum 1.0 er að efla skilning og þekkingu á forritun og kynna fyrir íslenskum börnum þá möguleika sem aukin hæfni í upplýsingatækni getur gefið þeim í framtíðinni.
Öllum nemendum í sjötta og sjöunda bekk mun á næstu misserum gefast kostur á því að fá gefins smátölvu sem nefnist Micro:bit. Það er einfalt, lítið tæki sem gefur krökkum kjörið tækifæri til að kynnast forritun á eigin forsendum með skapandi vinnu og tilraunum sem virkjar þannig frumkvæði og forvitni þeirra sjálfra. Í framhaldinu verður boðið upp á vikulegar áskoranir og nemendur munu fá aðgang að fræðslu og leiðbeiningum um notkun Micro:bit. Þá verður kennurum einnig boðin fræðsla um notkun Micro:bit. Allar upplýsingar verður að finna á heimasíðu Kóðans, krakkaruv.is.
Microbit er forritanleg tölva sem er hönnuð af BBC og fjölda samstarfsaðila til að vekja áhuga barna á forritun og kenna þeim forritun. Microbit er einskonar byrjendaútgáfa af Raspberry Pi eða Arduino tölvunum en verkefnið var upphaflega sett í gang í Bretlandi þar sem mikill skortur er á kennurum sem geta kennt forritun og því vantar að fleiri nemendur skili sér inn í heim tækni og forritunar.
Samtök iðnaðarins telja það mikið hagsmunamál að efla íslenskt menntakerfi með forritunarkennslu enda mikilvægt fyrir íslensk hugverkafyrirtæki og íslenskan iðnað. Menntamálastofnun hefur umsjón með dreifingu tölvanna til þeirra skóla sem vilja taka þátt, RÚV tekur þátt í verkefninu með því að vinna þætti, fræðsluefni og myndbönd fyrir krakka sem vilja vita meira um forritun en líka fyrir foreldra og kennara. Forritunarleikar sem RÚV stendur fyrir er verkefni sem börn geta tekið þátt í, annað hvort eins síns liðs, með bekknum sínum eða skóla. Heimili verkefnisins verður á KrakkaRÚV, undir slóðinni: http://krakkaruv.is/kodinn/um_kodann .
Illugi Gunnarsson:
„Heimurinn hefur á seinustu öldum breyst hraðar en nokkru sinni fyrr í mannkynssögunni. Veröldin sem við þekkjum í dag er að mörgu leyti allt önnur en sú sem mörg okkar ólumst upp í. Mörg af þeim störfum sem við inntum af hendi fyrir 20 árum eru ekki lengur til, og það er ýmislegt sem bendir til þess að sum af þeim störfum sem við þekkjum í dag muni tilheyra sögubókunum eftir önnur 20 ár.
Hraðar breytingar á samfélaginu skapa sérstakar áskoranir fyrir menntakerfið. Hvernig eigum við að vera viss um að menntunin sem börnin okkar hljóta í dag nýtist þeim sem best þegar þau eru komin út á vinnumarkað? Hvernig eigum við að hjálpa þeim að þroskast þannig að þau séu búin undir þau tækifæri sem þeim mun standa til boða eftir áratug?
Við þessu eru engin einföld svör, en það er frábært að sjá atvinnulífið og hið opinbera taka höndum saman og sýna frumkvæði í því að reyna að skapa ungu kynslóðinni þau lífsskilyrði sem þau eiga skilið. Í öllu falli er fyrirsjáanlegt að efla þarf þekkingu og áhuga barna á forritun og tæknigreinum í skólakerfinu. Þetta verkefni er skref í þá átt.“
Nánari upplýsingar: Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, forstöðumaður mennta- og mannauðsmála SI, ingibjorg@si.is, s. 824 6106.