Á dögunum var undirritaður samstarfssamningur á milli NKG og JCI á Íslandi. JCI (Junior Chamber International) er alþjóðleg hreyfing fyrir ungt fólk á aldrinum 18-40 ára sem hefur áhuga og metnað til að efla hæfileika sína og hafa jákvæð áhrif í kringum sig. Undirstaða starfsins er að efla einstaklinga í gegnum námskeið, verkefni og nefndarstörf og gera þá þannig hæfari til að takast á við stjórnun og ábyrgð í athafnalífi og félagsstarfi.
Það er vel þekkt að stærstur hluti fólks á erfitt með að halda ræðu af öryggi og sannfæringu. Algengasti misskilningurinn er þó að þetta sé á einhvern hátt meðfæddur eiginleiki, að sumir hafi þetta í blóðinu umfram aðra. Hið rétta er að öll samskipti eru lærð hegðun og það á einnig við um ræðumennsku. Er einstaklega mikilvægt að ungt fólk fái tækifæri til að þjálfa sig í þessu og því hreinlega frábært að fá JCI til liðs við NKG.
Í samstarfinu felst meðal annars að leiðbeinendur JCI munu sjá um hópefli á vinnstofu NKG en megin aðkoma JCI að NKG er að bjóða þátttakendum í vinnustofunni upp á kynningar- og ræðunámskeið, sem felur meðal annars í sér, að standa í pontu og beita röddinni. JCi mun svo veita viðurkenningarskjöl og afhenta bikar á lokahófi NKG.
JCI og NKG hafa starfað vel saman til fjölda ára en nú er samstarfið sem sagt, orðið formlegt. Er þetta vonandi bara fyrsta skrefið í átt að nánara og breiðara samstarfi, félaganna tveggja.
Svava Arnardóttir landsforseti 2017 og Eyjólfur B. Eyjólfsson verkefnastjóri NKG, undirrituðu samninginn en Fanney Þórisdóttir – verkefnastjóri mun sjá umj aðkomu JCI að NKG 2017.
Endilega kíkið á heimasíðu JCI og kynnið ykkur hið frábæra starf sem JCI innir af hendi: http://www.jci.is
Svava og Eyjólfur. Myndin er tekin í Húsnæði JCI hreyfingarinnar – Hellusundi 3.